Læt ekki hárkollu Davíðs ritskoða mig!


RÚV með skelfilega siðgæðisvitund

Í fréttatíma RÚV var rætt við Aðalstein Leifsson háskólakennara og sérfræðing í samningatækni.  Hann hélt því blákalt fram að afleiðingar höfnunar Icesave laganna í lýðræðislegri þjóðaratkvæðagreiðslu yrðu vægast sagt skelfilegar.  Ekki kom fram í viðtalinu hverjar þessar "skelfilegu" afleiðingar yrðu en það verður væntanlega næsta frétt á morgun.  Aðalsteinn sagði líka að Ísland hefði gert gríðarleg mistök í öllu samningaferlinu en tók skýrt fram að ástæðulaust væri að leita sökudólga heldur halda áfram á sömu braut.  Máli sínu til stuðnings tók Aðalsteinn fram að tíminn ynni með Bretum og Hollendingum og öll bið af hálfu Íslands veikti málstað þjóðarinnar án þess að tilgreina það sérstaklega í hverju það fælist.

Það sem fréttastofa RÚV tilgreinir ekki en varpar réttu ljósi á ómálefnalegan málflutning Aðalsteins eru störf hans fyrir Samfylkinguna.  Hann hefur t.d. setið í Evrópunefnd ríkisstjórnarinnar og verið sérlegur ráðgjafi Ingibjargar Sólrúnar.  Í þessu rétta ljósi ber að skoða málflutning Aðalsteins í fréttatíma RÚV.  En hvað segir Aðalsteinn um samningatækni á vef Háskóla Reykjavíkur þann 3.9.2007.

" Ef þú hefur þann veikleika að þora ekki að horfast í augu við bílasala og bjóða 700 þúsund í bíl sem á að kosta 1.200 þúsund samkvæmt verðmiðanum, verður þér lítið ágengt. Hið sama á við ef þú verður ástfangin af einum bíl og borgar uppsett verð fremur en að bjóða í nokkra bíla,"

Þá vitum við það.  Þegar Aðalsteinn er ekki að leika fréttafulltrúa Samfylkingarinnar eða starfsmann ESB þá segir hann ýmislegt að viti.


Ísland fyrir Íslendinga.

Ég er ekki kynþáttahatari heldur þvert á móti fylgjandi innfluttningi á Íslendingum made in China, Vietnam, USA og öðrum löndum.  Mín sýn á landið mitt og samborgara mótast af umburðarlyndi, umhyggju og frelsi til orða og athafna.  En ég vil búa í landi þar sem fólk skilur hvort annað og þess vegna verða innflytjendur að læra íslensku.

Án tungumáls eru þeir dæmdir í láglaunastörf og til lakari lífskjara.  Hér er auðvitað frekja mín að ná hámarki.  Gera bara kröfur til innflytjenda en ekki t.d. stjórnmálamanna eða þeirra sem koma fram í fjölmiðlum reglulega til að tjá sig.  Þeir verða auðvitað að tala skiljanlegt mannamál.  Hvað þýðir á íslensku að "efnahagsáætlun stjórnvalda sé í uppnámi".  Skilur þú það.  En hvað með orðin "stöðugleikasáttmáli" , eða "velferðarbrú".

Getur verið að sjónvarpsfólkið noti vísvitandi orð sem ekki nokkur skilur.  Er tilgangurinn að bulla og blekkja sófafólkið.  Hin sofandi almenning sem hlustar á fallegu orðin í sjónvarpinu en er engu nær.  Skilur hreinlega ekki um hvað er verið að ræða.  Kannski er þetta allt misskilningur hjá mér og ég er innflytjandinn sem kann ekki tungumálið.  Ekkert skilur og dæmdur til fátæktar um aldur og ævi.

Áramót 2009

 


2. janúar, klukkan ellefu við Bessastaði

stulli.jpgtoti.jpg

 

 

 

 

 

 

oli.jpg

besso2.jpg

besso.jpg

 

 

 

 

 

 

 myndakallar.jpg

 

 

 

 

 


Með leyfi forseta, nú æli ég!

Í áramótaávarpi sínu fullvissaði forsætisráðherra þjóð sína að betri tíð með blóm í haga væri í vændum.   Sælir yrðu fátækir og þeim ríku komið bak við lás og slá.  Árið sem væri liðið hefði þjappað fólki saman og hafið gömul og góð íslensk gildi til vegs og virðingar að nýju.  Nefnilega nýtni og nægjusemi.  Jóhanna sagði að dýrmæt reynsla hefði orðið til í bankahruninu.  Reynslu sem bæri að hlusta á og fara eftir.  Þegar ofurkapitalismi færi úr böndunum með tilheyrandi lánasukki og græðgi tæki hann blómleg fyrirtæki með sér í fallinu.   Lausnin fælist í að setja skorður á markaðshyggju og krefjast ábyrgra fyrirtækja sem leggja rækt við samfélagið sitt.  Hvað svo sem það þýðir?

En ekki nóg með að Jóhanna lofaði öllu og engu í ávarpi sínu heldur gaf hún líka í skyn að aðild að ESB væri partur af einhverjum björgunarpakka.  Pakka sem verndaði íslenska tungu, menningu, efnahagslegt sjálfstæði og stuðlaði að opnum og frjálsum viðskiptum við þjóðir sem stæðu okkur næst.  Hér er forsætisráðherra að sjálfsögðu að vísa í Holland og Bretland ásamt þeim ESB lögum sem Landsbankinn starfaði eftir og sumir kölluðu tæra snilld.  

Jólagjöf Jóhönnu til samlanda sinna í ár var ömurlega kliskjukennd ræða um allt og ekkert.  Ræðu sem allir verða búnir að gleyma á morgun.  Hvers vegna var hún að tala um stríð og íslenskt vatn í sömu setningu.  Forsætisráðherra þjóðarinnar veit greinilega eitthvað meira en ég.  Verður Ísland næsta Bólivía og Bechtel eða Alchoa með einkarétt á dreifingu og sölu á vatni.


Framtíðarsýn sjáanda 2010

Gerald Celente hefur verið óþreytandi að greina stefnur og strauma síðan 1980.  En það ár stofnaði hann The Trends Research Institute sem gefur út ársfjórðungslega tímaritið The Trends Journal.  Í nýjasta hefti blaðsins greinir Gerald eftirfarandi stefnur fyrir árið 2010.

Algjört hrun efnahagskerfisins.

Hér er verið að spá fyrir hruni efnahagskerfis Bandaríkjanna.  Gerald spáði að þetta myndi gerast á árinu 2009 en ótrúlegur fjáraustur ríkisins í botnlausa hít Wall Street (lesist bankaeigendur) frestaði algjöru hruni um eitt ár eða svo.  Allt tal um græna sprota og batnandi markaði er bara sjónvarpstal í la la landi.

Hryðjuverk.

Gerald lofar hryðjuverkum og bendir á "lone wolf, self-radicalized gunmen" máli sínu til stuðnings.  Áralangt stríð í Írak, Afganistan og nú Pakistan hafi magnað upp hatur á árásarþjóðunum upp í slíkar hæðir að hefnd og hryðjuverk séu óumflýjanleg.

Þú ert ekki velkominn hér.

Á árinu 2010 munum við sjá nýjar pólítískar hreyfingar í USA og Evrópu sem eru á móti innflytjendum.  Í Evrópu verður það óttinn við múslima en í Bandaríkjunum fá aumingja Mexíkanarnir að kenna á því.

Fallegir hlutir sem ekki kosta mikið.

Á sama tíma og aðgengi fólks að peningum minnkar fæðist ein áhrifamesta stefna næstu ára.  Stefna sem Gerald kallar "Elegance".  Hún byrjar í tískuheiminum og teygir sig víða eftir það.  Hér á Íslandi er hægt að benda á lopapeysuæðið sem part af þessu.  Fólk framleiðir föt og fallega hluti sem það selur hvort öðru á lægra verði en hlutir eftir fræga hönnuði kosta.

Í undanförnum blöðum hefur Gerald spáð fyrir skattaóeirðum, matarskorti á heimilum og hærri glæpatíðni.  Ekki hefur hann breytt um skoðun og í þessu tölublaði talar hann um fólk sem vaknar upp af værum blundi án peninga og atvinnulaust.  Allir þeir sem trúðu á kerfið en gera það ekki lengur reyna að bjarga sér svo þeir þurfi ekki að sofa á götunni.  Fólk finnur leiðir til að spila á kerfið.

Herra Celente hefur ekki neina yfirnáttúrulega hæfileika til að sjá fyrir strauma og stefnur.  Hann segist notast við fjölmiðla og ýmsar aðrar leiðir til að spá í framtíðina.  Hann sá fyrir hrunið á Wall Street árið 1987, fall Sovétríkjanna,  fjármálakreppuna 1997 í Asíu, svínaflensuna og nú síðast bankahrunið 2008.  Í nánustu framtíð sér hann uppgang fasima í USA, mataróeirðir og skattauppreisnir ásamt WWIII.  Nú er bara að hlakka til og bíða.

 

 

 

 


Al Kæda með útibú á Íslandi?

Obama sagði "Þeir sem ætla sér að ráðast á saklausa borgara verða að vita að við ætlum okkur meira en bara að þétta varnir okkar."

Hvað er hann að meina.  Fleiri upplogin stríð og hörmungar handa fólki.  Joe Biden varaforseti sagði stuttu eftir kosningasigur Obama að það yrði gerð stór hryðjuverkaárás á Bandaríkin árið 2010!  Hverning í fjandanum gat hann látið þessi orð út úr sér.  Er hann sjálfur að skipuleggja hryðjuverkin eða einhver sem hann þekkir persónulega.  

En hvað er ekki sagt um þessa nærbuxnaárás í íslenskum fjölmiðlum.  Honum var fylgt framhjá vegabréfseftirliti af "vel klæddum manni" samkvæmt frásögn vitna.  Enda kom í ljós að hann hafði ekki vegabréf með sér.  Í fluginu sjálfu var maður með videovél sem tók upp alla atburðarásina.  

Í kjölfarið þurfu nú allir að sætta sig við nærbuxnaleit og töskuleit áður en þeir fara í flug til USA.  Ekki ósvipað og bannað var að taka með sér vökva inn á flugvallarsvæðið eftir misheppnaða tilraun Richards Reed til að sprengja flugvél með skósprengju.  Sama plottið og í kjölfarið þurfa allir að samþykkja hert eftirlit og niðrandi framkomu yfirvalda.  

Má ekki taka með sér naglaklippur í flug, ok.  Má ekki koma með vatnsflösku í flug, ok.  Þarf ég að fara úr skónum og taka af mér beltið, ok.  Verð ég að fara úr fötum og samþykkja endaþarmsleit, ok.  Ganga nakinn í gegnum tölvusneiðmyndatæki og gefa blóð, ok.  Bannað að fljúga vegna hryðjuverkahættu og Co2 mengunar, ok.  Bannað að ferðast nema með sérstöku leyfi, ok.  Allt bannað, ok.  

Er ekki tími til að fólk sjái í gegnum þetta lodderí og segi NEI.  


Terminator hittir Dansað við úlfana

Þetta er flottasta strumpamynd sem ég hef á ævinni séð.  Sigourney Weaver fer á kostum í hlutverki vísindastrumps og Sam Worthington er algjörlega trúverðugur sem hlaupastrumpur í hjólastól.  Ekkert smá afrek það.  En það er samt tölvugrafíkin sem stelur senunni og áhersla á smáatriði hjá leikstjóranum, James Cameron, sem gera Avatar að einni bestu skemmtun ársins 2009 og kannski líka 2008.  Já það má líka henda inn öllum árum sem The Lord of the Rings var ekki frumsýnd.

avatar_jamescameron6-550x309.jpgSöguþráður Avatar kemst fyrir á einu blaði af klósettpappír og er álíka þunnur.  Jake Sully er jarðarbúi í hjólastól.  Hann er síðan sendur til annarar plánetu og breytist í hlaupastrump.  Þar hleypur hann í fang ástarstrumps og bjargar þorpinu frá Kjartani galdrakalli.  Inn í söguna fléttast síðan umhverfisboðskapur í boði FOX samsteypunnar.  Plús slatta af áróðri fyrir miðlægum gagnagrunni (Tree of Souls) og "flögunni".

avatar_jamescameron4-550x309.jpg

En grafíkin og brellurnar, VÁ.  Ekkert sem sést hefur áður á kvikmyndatjaldinu líkist þessu.  Final Fantasy frá árinu 2001 kemst kannski næst en tækninni hefur fleygt mikið fram, hóst, hóst, mjög mikið.  Aðrar myndir sem hafa verið teiknaðar að miklu eða öllu leyti í tölvu t.d. nýjustu Star Wars myndirnar líkjast bara gömlum tölvuleik við hliðina á Avatar.  Munurinn er það mikill enda kannski ekki skrítið þegar haft er í huga að tölvurnar í dag eru mörg hundruð sinnum öflugri og James Cameron er með netta fullkomnunaráráttu á háu stigi.

En hvað er það sem gerir Avatar að því meistarverki sem myndin er?  Jú, hún hefur sömu áhrif og Apocalypto eftir Mel Gibson.  Fær mann til að þykja vænt um persónunar og upplifa framandi umhverfi líkt og maður væri þarna sjálfur.

 


Fallega fólkið í Brussel

Þegar VG var í stjórnarandstöðu fengu þeir uppnefnið NEI fólkið.  Sögðu alltaf nei ef aðrir komu með góðar hugmyndir og voru á móti öllu.  Á móti álverum, á móti bönkum og á móti öllu góðu og vel meinandi fólki.  Stjórnarflokkarnir á þeim tíma lýstu því yfir að ekki þyrfti að ræða gagnrýni VG því þeir væru bara á móti ÖLLU.  Þessi umræða virkaði svo vel að í dag hafa stuðningsmenn ESB tekið hana yfir.  Kalla alla þá sem gagnrýna ESB bara NEI fólk sem er á móti öllu og bæta smá skammti af útlendingahatri við.

Málflutningur Moggabloggarans, Ómars Valdimarssonar, er ágætt dæmi um þetta.  Hann fer mikinn í pistlum sínum og sakar alla sem hafa efasemdir um ESB um neikvæða afdalamennsku.  Í hans huga er dæmið einfalt.  Þú tekur þátt í alþjóðasamstarfi með fallega fólkinu eða lokar þig inni með íslenskum rollum sem skíta á þig við öll tækifæri.  Ómar er á móti styrkjum til íslenskra bænda.  Hann er á móti allri haftastefnu og fylgjandi frjálsum viðskiptum.  Hann er líka á móti spillingu og sí gjammandi stjórnmálamönnum.

En hvað mundi blasa við Íslendingum ef Ómari og félögum tækist að opna gullna hliðið í Brussel.  50 prósent af núverandi fjárlögum ESB fara í styrki til bænda en ekki 1 prósent eins og hjá Íslendingum.  ESB er með tolla á innflutt matvæli og bannar innflutninng á ferskum kjötvörum.  ESB er með fleiri og strangari reglur fyrir atvinnustarfsemi í aðildarlöndum.  Evrópuþingið er með 750 sí gjammandi valdalausa stjórnmálamenn sem ekki borga skatt.  Rúsínan í ESB endanum er síðan öll spillingin sem þrifst við kjötkatlana í Brussel.  T.d. þurfti öll stjórn ESB að segja af sér fyrir nokkrum árum.

Má ég nú frekar biðja um 1% styrki en 50% og 63 þingmenn í stað 750 að ógleymdu 100% völdum í stað 0.5%, kannski.

  eu_president_4101562004133_display_942027.jpg


Næsta síða »

Höfundur

Björn Heiðdal
Björn Heiðdal
Höfundur er ræstitæknir á eftirlaunum og áhugamaður um exbox.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 121686

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband